Tveir leikir í 4.karla

20.11.2013
Eldra og yngra ár í 4. flokki karla léku gegn Haukum á sunnudag. Spilamennska liðanna var kaflaskipt og var sóknarleikurinn hjá okkar mönnum engan veginn nægilega góður í leikjunum. 1998 liðið sigraði 17-14 í afar sérstökum leik en 1999 liðið tapaði fyrir sterku Haukaliði eftir að hafa leikið vel lengst af í leiknum.
 
Spilamennska 1998 liðsins minnti um margt á Dr. Jekyll and Mr. Hyde, svo ólíkir voru kaflarnir sem liðið bauð upp á í leiknum. Fyrri hálfleikurinn var það slakasta sem ÍBV liðið hefur boðið upp á í vetur en eftir 22 mínútur voru Eyjamenn 3-8 undir. Þeir náðu þó að laga stöðuna í 5-8 í hálfleik. Í síðari hálfleik gekk enn brösuglega að skora framan af þó sóknarleikurinn hafi skánað eftir því sem á leið. Haukar leiddu 11-12 þegar 6 mínútur voru eftir. Þær 6 mínútur sýndi ÍBV hins vegar sínar allra bestu hliðar, gerði 6 mörk gegn 2 frá Haukunum og sigraði 17-14.
 
Í raun sýndi liðið sínar bestu og verstu hliðar í leiknum sóknarlega. Það var þeim þó til happs að vörnin og markvarslan var alltaf til staðar og hélt þeim inni í leiknum en þeir þættir í bland við stemmninguna sem skapaðist í síðari hálfleik skiluðu sigri í þessum leik. Strákarnir rifu sig upp og gáfust ekki upp þrátt fyrir slaka frammistöðu sóknarlega. Það er nefnilega engin ástæða til að hætta þó hlutirnir gangi ekki allir upp því það er enda niðurstaðan sem máli skiptir.
 
1999 liðið byrjaði vel og var leikur þeirra gegn Haukum jafn upp í 5-5. Skelltu Haukar þá í lás varnarlega og náðu fjögurra marka forskoti 7-11 sem þeir höfðu í hálfleik. Í síðari hálfleik hélst sá munur, ÍBV reyndi hvað þeir gátu til að komast nær Haukum en áttu erfitt í sókninni. Undir lokin fór ÍBV að taka áhættur í þeirri von um að minnka muninn en það varð til þess að munurinn jókst í 7 mörk. Lokatölur 16-23.
 
Alveg eins og hjá eldra liðinu var það vörn og markvarsla sem hélt liðinu inni í leiknum. Markmennirnir vörðu meistaralega í leiknum og eiga hrós skilið. Haukar eru með gott lið í þessum aldursflokki og sýndi ÍBV að þeir geta vel spilað með þeim. Með örlítið meiri klókindum sóknarlega og betri lausnum hefðu strákarnir náð að búa til spennandi leik. Þessi íþrótt er maraþon og snýst þetta um að bæta sig og halda áfram, og skiptir mestu máli hvernig spilamennskan verður undir lok tímabils. Það sem strákarnir sýndu í þessum leik bar þess merki að þeir væru á réttri leið varnarlega sem og að hugarfar leikmanna var gott í leiknum, allir leikmenn voru á fullu. Haldi þeir svona áfram mun vera stutt í næsta sigur.

Myndir

Næstu leikir

Dagsetning Leikur Klukkan

Staðan í deildinni

 
Karla   Kvenna
Félag Stig   Félag Stig
1. Haukar 32   1. Stjarnan 38
2. ÍBV 30   2. Valur 36
3. Valur 24   3. ÍBV 34
4. FH 21   4. Fram 32
5. Fram 20   5. Grótta 31
6. Akureyri 18   6. FH 20
7. ÍR 18   7. Haukar 20
8. HK 3   8. HK 18
      9. Fylkir 13
      10. Selfoss 10
      11. KA/Þór 10
      12. Afturelding 2

Facebook

Vefsíðugerð & vefhönnun: Smartmedia 2013